Heildarlosun Garra minnkaði um 5,4% milli ára, frá árinu 2020 til ársins 2021.
Umtalsverður árangur hefur náðst í losunarkræfni frá fyrri árum. Rekja má þann árangur til notkunar á vélum og tækjum sem nýta sér orkusparandi lausnir sem hafa gert Garra kleift að reka mun stærra húsnæði og tækjabúnað á umhverfisvænni hátt.
Með bættum tækjabúnaði, verkferlum og sjálfvirknivæðingu m.a. með tilkomu netverslunar sem hefur skilað betra flæði í pöntunarferli og afgreiðslu, hefur losunarkræfni starfsmanna lækkað um 11,9% frá fyrra ári.
Á undanförnum árum hefur eyðsla á km minnkað vegna bættrar tækni í bílum og endurnýjun hefur átt sér stað. Eitt af markmiðum ársins 2021 var að bæta hlutfall rafmagnsbíla á móti bensín/díselbílum og það náðist. Fjórum plug-in-hybrid bílum var bætt við flotann á árinu 2021 og er nú hlutfall umhverfisvænni bíla (metan/plug-in hybrid) á móti dísel/bensínbílum orðið um það bil 30% en árið 2020 var hlutfallið um 15%.
Vel hefur tekist til eftir að húsnæðið var tekið í notkun 2018 að fínstilla hitakerfi og leita leiða til að hámarka orkunýtingu sem hefur náð ákveðnum stöðugleika.
Árangur í flokkun hefur verið ágætur á síðustu árum og var 34% úrgangs flokkað á árinu 2021. Stefnt er að hærra hlutfalli flokkunar úrgangs á árinu 2022. Flokkun hjá Garra á sér stað á öllum sviðum, þ.e. á pappír, plasti, pappa, timbri og lífrænum úrgangi.